Árið 1997 tók saman hópur félagsvísindafólks, stefnumótunaraðila og fólks sem starfaði með börnum og ungmennum á vettvangi og leitaðist við að setja fram stefnu og starf, byggt á rannsóknum, sem gæti snúið þróuninni við. Markmiðið með því samstarfi var að kortleggja þá félagslegu þætti sem hefðu áhrif á vímuefnanotkun ungmenna og hanna aðgerðir sem hægt væri að beita í forvarnarstarfi. Útkoman var forvarnarlíkan, Íslenska módelið, sem byggir á samstarfi fjölmargra hluteigandi aðila, til að mynda foreldra, kennara, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og fleiri aðila í nærumhverfi barna og ungmenna.