ÍSLENSKA MÓDELIÐ

Íslenska módelið byggir á samstarfi fjölmargra aðila, t.a.m. foreldra, kennara, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og fleiri í nærumhverfi barna og ungmenna.

midbaerinn

Á tíunda áratug síðustu aldar var vímuefnaneysla ungmenna vaxandi vandamál í íslensku samfélagi. Forvarnaraðferðir sem beitt hafði verið og miðuðu að því að kenna ungmennum um skaðsemi vímuefnaneyslu, virtust ekki virka sem skyldi. 

SAMSTARF MARGRA AÐILA

Árið 1997 tók saman hópur félagsvísindafólks, stefnumótunaraðila og fólks sem starfaði með börnum og ungmennum á vettvangi og leitaðist við að setja fram stefnu og starf, byggt á rannsóknum, sem gæti snúið þróuninni við. Markmiðið með því samstarfi var að kortleggja þá félagslegu þætti sem hefðu áhrif á vímuefnanotkun ungmenna og hanna aðgerðir sem hægt væri að beita í forvarnarstarfi. Útkoman var forvarnarlíkan, Íslenska módelið, sem byggir á samstarfi fjölmargra hluteigandi aðila, til að mynda foreldra, kennara, félagsmiðstöðva, íþróttafélaga og fleiri aðila í nærumhverfi barna og ungmenna.

Þegar unnið var að þróun Íslenska módelsins var byggt bæði á alþjóðlegum rannsóknum sem og rannsóknum R&G. Útkoman var samfélagsmiðuð (e. community-based) nálgun þar sem lögð var áhersla á að ná til og virkja hlutaðeigandi aðila í nærumhverfi barna. Í því felst að nærsamfélagið er virkjað og leitast við að auka líkur á að ungmenni nýti tíma sinn á jákvæðan, uppbyggjandi hátt. Þetta er t.a.m. gert með því að styrkja stuðningshlutverk foreldra og skóla og fjölga tækifærum ungmenna til þess að stunda skipulagt tómstundastarf. Módelið gengur út frá því að unnið sé með hvern landshluta, sveitarfélag, hverfi eða jafnvel skóla.

Ísland hefur nokkra sérstöðu hvað varðar möguleika í forvarnarstarfi. Sökum smæðar þjóðfélagsins eru Íslendingar fljótari til en margar stærri þjóðir þar sem hægt er að fara „heilan hring“ með módelið á aðeins einu ári. Þetta felur í sér að unnt er að mæla stöðuna, taka ákvörðun um inngrip, beita því og mæla síðan árangurinn allt á einu almanaksári. Afraksturinn af þessari vinnu hefur ekki leynt sér á Íslandi en t.a.m. hefur áfengis- og vímuefnaneysla ungmenna dregist margfalt saman frá upphafi mælinga árið 1992.