AÐFERÐAFRÆÐIN

Rannsóknirnar Ungt fólk eru þýðisrannsóknir en í því felst að þær eru ekki byggðar á hefðbundnum úrtökum heldur er reynt að ná til sem flestra í úrtaksrammanum innan þýðisins.

Þetta er gert með því að leggja spurningalista fyrir alla nemendur sem mættir eru til skóla á degi fyrirlagnar með það að leiðarljósi að lágmarka vikmörk niðurstaðnanna. Niðurstöður þessara kannana eru því mjög áreiðanlegar, hvort sem litið er til tiltekinna landssvæða eða mismunandi hópa. Þátttakendur eru þeir nemendur grunn- og framhaldsskóla sem mættir eru í kennslustund á þeim tíma sem könnunin er lögð fyrir. Kannanir meðal grunnskólanema eru lagðar fyrir árlega og á tveggja ára fresti meðal framhaldsskólanema.

MÆLITÆKI

Mælitæki kannananna eru ítarlegir spurningalistar sem hafa verið þróaðir ár frá ári, fyrst af starfsfólki Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála, í samstarfi við menntamálaráðuneytið, en frá 1999 af Rannsóknum & greiningu. Spurningarnar eru mótaðar af fagfólki í félagsvísindum þar sem farið er eftir ströngum kröfum um að þær leiði til öruggra niðurstaðna, að áreiðanleiki og réttmæti sé ávallt í fyrirrúmi. Spurningalistinn inniheldur á bilinu 80-90 spurningar. Fáeinum aukaspurningum hefur svo í gegnum árin verið bætt við kjarnaspurningar eftir því hvaða mál eru efst á baugi hverju sinni. Kvarðar eru gjarnan notaðir sem svarmöguleikar við spurningum til að auka réttmæti spurninganna, í þessum spurningalistum er svonefndur Likert-kvarði1 mest áberandi. 

FRAMKVÆMD OG ÚRVINNSLA GAGNA

Framkvæmd kannananna er þannig háttað að spurningalistar eru sendir til skóla landsins þar sem kennarar sjá um að leggja þá fyrir samkvæmt ákveðnum fyrirframgefnum fyrirmælum. Nafnleyndar þátttakenda er gætt með því að ítreka það fyrir nemendum að hvorki beri að rita nafn né kennitölu á svarblöðin svo útilokað sé að rekja svörin til þeirra. Einnig eru nemendur vinsamlegast beðnir um að svara öllum spurningunum eftir bestu samvisku og að biðja um hjálp ef þörf er á. Í niðurstöðuskýrslum er tíðni í prósentum sett fram í myndum og töflum með hlutföllum og samanburði milli ýmissa þátta.