Áhættuhegðun unglinga í augum gervigreindar

Evrópska rannsóknaráðið (ERC) veitti í dag Lifecourse og Vitvélastofnun Íslands (IIIM) 150.000 evra styrk til rannsókna á áhættuhegðun unglinga með aðferðum gervigreindar. Styrkurinn er framhaldsstyrkur fyrir Lifecourse verkefnið, sem leitt hefur verið af Ingu Dóru Sigfúsdóttur framkvæmdastjóra vísinda hjá Rannsóknum og greiningu og prófessors við sálfræðideild Háskólans í Reykjavík (HR), þar sem einum árgangi íslenskra ungmenna var fylgt eftir yfir tíma með það fyrir augum að kanna hvað hefur áhrif á líðan og hegðun þeirra. 

Gagna var að stórum hluta aflað með Ungt fólk rannsóknunum sem gefa greinargóða mynd af viðhorfi, umhverfi og líðan ungmennanna sem skoðuð voru með samanburði við heilsufarsgögn og lífsýni. Nú mun Kristinn R. Þórisson, framkvæmdastjóri IIIM og prófessor við tölvunarfræðideild HR, koma að verkefninu og leita nýrra svara úr gagnasafninu með aðferðum gervigreindar.

Inga Dóra Sigfúsdóttir var að vonum ánægð með styrkinn og sagði: „Þetta er mikill heiður fyrir okkur í rannsóknarhópnum og
sérstaklega í ljósi þess að ERC hefur gefið það út að umsóknir voru margar
þetta árið og gæði þeirra mikil. 

“Við erum mjög spennt að hefjast handa við áframhald rannsókna á þessum mikilvæga málaflokki og nú með nýjum aðferðum‟. 

Kristinn R. Þórisson bendir á að notkun gervigreindar í félagsvísindum sé mikið
nýnæmi og því verði mjög áhugavert að fá að koma að rannsókn sem þessari og
aðlaga aðferðir gervigreindar að nýju rannsóknasviði.

Caine Meyers, sérfræðingur hjá Lifecourse, segir tilkomu
gervigreindar gera rannsakendum kleift að
setja upp ímyndaðar aðstæður sem ómögulegt væri að rannsaka annars. Sett verði upp nokkurs konar hermilíkan sem gerir það kleift að spyrja nýrra spurninga og jafnvel sjá mynstur í gögnunum sem í fljótu bragði væri erfitt að koma auga á. Það er því í raun eins og fyrirliggjandi gagnasafn sé stækkað á einhvern hátt en á sama tíma mun þá koma betur í ljós hvar fræðileg mörk gagnasafnsins liggja. Einnig gefi rannsóknirnar fyrirheit um að nýjar aðferðir við forvarnarstarf á meðal ungmenna gætu litið dagsins ljós.

Ungt fólk rannsóknirnar hafa verið unnar skipulega í grunn- og framhaldsskólum landsins í samvinnu við sveitarfélög á Íslandi frá árinu 1999 en þar hefur sjónum meðal annars verið beint að orsökum áhættuhegðunar hjá börnum og unglingum. Það samstarf ásamt vinnu íþróttafélaga, tómstundaklúbba, félags- og æskulýðsfulltrúa, félagasamtaka, skóla og fleiri hefur skilað gríðarlegum árangri í minni áfengis- og vímuefnanotkun ungmenna á Íslandi.

Alls hlutu 166 rannsóknaverkefni styrk þetta árið hjá Evrópska rannsóknaráðinu en til úthlutunar voru um 25 milljónir evra. Styrkveitingarnar áttu sér stað undir merkjum Horizon Europe, og eru svokallaðir áreiðanleika styrkir eða “Proof of Concept Grants”.