Í rannsókn sem gerð var á 59.000 íslenskum unglingum, og unnin var af teymi íslenskra og bandarískra atferlis- og félagsvísindamanna, kemur fram að COVID-19 hefur haft skaðleg áhrif á andlega heilsu unglinga, sérstaklega á meðal stúlkna.
Rannsókn sem nær til heillar þjóðar og birtist í dag í blaðinu The Lancet Psychiatry er sú fyrsta sem kannar og skrásetur breytingar á andlegri heilsu unglinga byggðar á aldri og kyni á tímum heimsfaraldurs COVID-19, samanborið við tölur sem áður höfðu sýnt aukna andlega vanlíðan og safnað var fyrir faraldurinn. Greininni fylgir umsögn frá, norsku fræðimönnunum Gertrud Sofie Hafstand og Else-Marie Augusti, sem báðar starfa fyrir Norsku rannsóknarmiðstöðina í ofbeldis- og áfallastreiturannsóknum, en að þeirra mati sýnir rannsóknin að það sé: „mjög mikilvægt að leggja mat á geðheilsu ungmenna yfir langan tíma,“ eins og hér er gert.
Ingibjörg Eva Þórisdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og einn af höfundum greinarinnar segir: „Við tókum eftir því við greiningu síðustu rannsóknarniðurstaðna að þunglyndiseinkenni ungmenna mælast meiri en áður og að andleg heilsa þeirra er verri. Í faraldrinum hefur þó dregið úr neyslu vímuefna en í gögnum okkar getum við borið saman sama aldurshóp fyrir og eftir faraldurinn.“
Þar að auki, sýndi rannsóknin að munur var á aldri og kyni hvað varðar líðan ungmenna í faraldrinum en faraldurinn virðist hafa haft mun neikvæðari áhrif á andlega heilsu stúlkna á aldrinum 13-18 ára en drengja á sama aldri. Rannsóknin leiddi einnig í ljós að dregið hefur úr sígarettu reykingum, rafrettunotkun og áfengisneyslu á meðal 15-18 ára barna í faraldrinum. Hins vegar, er mögulegt að minnkandi áfengisneysla sé óbein afleiðing af aukinni einangrun, sem getur virkað eins og verndandi þáttur og dregið úr vímuefnaneyslu til lengri tíma.
Þórhildur Halldórsdóttir, klínískur barnasálfræðingur og lektor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík og einn af höfundum, sagði að rannsóknin væri: „mikilvægt framlag til þeirrar vitneskju og þekkingar að félagsleg einangrun í faraldrinum frá jafnöldrum og vinum hafi gríðarlega slæm sálræn áhrif á ungt fólk.“
Þetta er fyrsta rannsóknin á heimsvísu sem skrásetur hin víðtæku áhrif sem faraldurinn hefur haft á andlega heilsu ungmenna. Samkvæmt rannsakendum, þá hafa fyrri rannsóknir ekki verið settar upp til þess að kanna klínískt mat á þunglyndi, öfugt við þunglyndi sem þátttakendur greina hjá sér sjálfir, og þá hvort að neysla vímuefna hafi aukist í faraldrinum. Í fyrri rannsóknum, hefur andleg heilsa verið skoðuð útfrá geðrænum kvillum og út frá neyslu ákveðinna tegunda vímuefna þar sem neysla hefur aukist. En án þess að safna upplýsingum um tíðni frá því fyrir faraldurinn hefur ekki reynst mögulegt, fyrr en nú, að meta hrein áhrif COVID-19 á versnandi andlega heilsu ungmenna.
Inga Dóra Sigfúsdóttir, prófessor og framkvæmdastjóri vísinda hjá Rannsóknum og greiningu, sagði að rannsóknin væri „frábrugðin fyrri rannsóknum að því leyti að hér er versnandi andleg heilsa og vímefnaneysla rannsökuð hjá heilli þjóð yfir nokkurra ára tímabil en með því móti er hægt að sjá hvaða áhrif COVID-19 hefur sérstaklega á þá versnandi andlegu heilsu sem mælst hefur hjá ungmennum síðustu ár.“
Álfgeir L. Kristjánsson, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu og kennari við lýðheilsudeild West Virginia University og meðhöfundur greinarinnar segir niðurstöðuna sýna „að sterk tengsl séu á milli félagslegra þátta annars vegar og heilsu og vellíðunar ungmenna hins vegar sem gerir það nauðsynlegt að viðhalda sterku stuðningsneti í kringum þau.“ Lancet Psychiatry greinin sýni þetta samband á skýran hátt í niðustöðum sem ná til ungmenna heillar þjóðar.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að aðgerðir sem ætlað er að draga úr neikvæðum áhrifum faraldursins á andlega líðan ungmenna gætu hjálpað til við að bæta framtíðarhorfur þeirra. John Allegrante, atferlisfræðingur og prófessor í lýðheilsu við Teachers College í Columbia University, sem er meðhöfundur og ráðgjafi við rannsóknina segir: „Þessi rannsókn sýnir að forvarnir sem viðhafðar eru hjá heilli þjóð, og sérstaklega á meðal stúlkna, eru gríðarlega mikilvægar.“ og bætti við, „en nauðsynlegt er að gera frekari rannsóknir á langtíma áhrifum sóttkvíar og því að vera einangraður frá jafnöldrum sínum.“
Aðrir vísindamenn á meðal meðhöfunda eru Bryndís Björk Ásgeirsdóttir, prófessor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík, Heiðdís Björk Valdimarsdóttir, prófessor í sálfræði við Háskólann í Reykjavík og Icahn School of Medicine við Mount Sinai, Erla María Jónsdóttir Tolgyes, yfirmaður verkefnastjórnunar hjá Rannsóknum og greiningu og Jón Sigfússon framkvæmdastjóri hjá Rannsóknum og greiningu.
© Rannsóknir og greining ehf. – Lágmúla 6, 108 Reykjavík