Eftirfarandi eru þeir skilmálar sem gilda um afnot af gögnum frá Rannsóknum og greiningu (R&G). Með umsókn um afnot af gögnum samþykkja umsækjendur að fylgja eftirfarandi til hins ýtrasta. Umsækjendum, leiðbeinanda og nemanda, er óheimilt að veita þriðja aðila aðgang að gögnum þeim sem óskað er eftir. Leiðbeinendur sækja um afnot af gögnum í samráði við nemendur og leiðbeinandi er ábyrgðarmaður gagnanna á vinnslutíma verkefnisins.
Rannsóknum og greiningu skulu veitta upplýsingar á netfangið rannsoknir@rannsoknir.is um stöðu verkefnisins og framgang. Ef áætlaður vinnslutími verkefnisins breytist skal það tilkynnt og lokaeintak verkefnisins sent Rannsóknum og greiningu á ofangreint netfang við verkefnalok. Eftir að verkefni lýkur hafa hvorki umsækjandi né nemandi leyfi til að nýta gögnin, nema um það sé gert skriflegt samkomulag að nýju. Rannsóknir og greining veitir ekki aðgang að gögnum sem eru yngri en 3 ára.
Rannsóknir og greining áskilur sér rétt til að hafna beiðni um afnot gagna sé skilyrðum ekki fullnægt. Úrvinnslutími umsóknar og afhending gagna getur tekið allt að 4 vikum.
Yfirlýsing vegna afnota af gögnum Rannsókna og greiningar (R&G) kt. 450399-2489, Háskólanum í Reykjavík, Menntavegi 1, 101 Reykjavík.
1.gr. Höfundaréttur
Höfundaréttur að gagnasafni R&G tilheyrir Rannsóknum og greiningu, sbr. ákvæði höfundalaga, nr. 73/1972. Við úrvinnslu og ritun skýrslna/ritgerða/greina úr safninu skal geta höfundaréttar og gagna með tíðkanlegum hætti.
2.gr. Aðgangur að gagnasafni R&G
Umsækjendum er undir öllum kringumstæðum óheimilt að veita þriðja aðila s.s. einstaklingum, félögum eða stofnunum, aðgang að gagnasafni R&G á nokkurn hátt. Óski þriðji aðili eftir aðgangi að gögnum skulu þeir sem undir yfirlýsinguna rita tilkynna það framkvæmdastjóra R&G. Við lok þess verkefnis sem unnið er á grundvelli gagna samkvæmt yfirlýsingu þessari hefur viðkomandi ekki lengur aðgang að gagnasafninu og eru óheimil hverskonar not af safninu eftir það. R&G er heimilt að leggja lögbann við hverskonar afnotum að gagnasafni R&G sem fara í bága við yfirlýsingu þessa eða brjóta gegn yfirlýsingunni með öðrum hætti, sbr. ákvæði IV. kafla laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu og lögbann.
3.gr. Vistun gagnasafns R&G
Gagnasafn R&G er vistað miðlægt á starfsstöð félagsins, nú Menntavegi 1, 101 Reykjavík. Umsækjendum er heimilt að afrita gagnasafnið á einkatölvu sína á meðan notkun þess stendur.
4.gr. Skil á gögnum
Við lok verkefnis sem unnið er á grundvelli gagna samkvæmt yfirlýsingunni skal viðkomandi eyða öllum þeim gögnum sem R&G heimilaði afnot af meðan á vinnslutíma verkefnisins stóð.
5.gr. Trúnaður
Umsækjendur er fá heimild til afnota af gögnum R&G skuldbinda sig til að fylgja skilmálum þessum í hvívetna.
Upplýsingar um spurningaflokka má fá hjá Rannsóknum og greiningu. Umbeðin gögn skulu aðeins innihalda spurningar sem tengjast rannsóknarspurningu að hámarki 40 breytur eins og fram kemur í lið 4. Öllum gagnasettum fylgja bakgrunnsbreytur. Gagnasett innihalda allt að tvöþúsund einstaklinga.
© Rannsóknir og greining ehf. – Lágmúla 6, 108 Reykjavík