Ef litið er til niðurstaðna úr könnuninni sem lögð var fyrir alla nemendur í 8., 9. og 10. bekk á Íslandi síðastliðinn febrúar sýna tölur að ölvun síðastliðna 30 daga meðal tíundubekkinga hefur aukist sem nemur einu prósentustigi og er hlutfallið nú 7%. Hlutfall nemenda sem reykja daglega og hlutfall þeirra sem hafa prófað kannabis stendur í stað milli mælinga. Sérfræðingar hjá Rannsóknum & greiningu hafa síðastliðin misseri vakið athygli fag- og stefnumótandi aðila á þeirri aukningu í daglegri notkun rafrettna sem sjá mátti í rannsóknarniðurstöðum R&G. Nýjustu niðurstöðurnar sýna aftur á móti að töluvert hefur dregið úr notkun rafrettna meðal barna í efstu bekkjum grunnskóla og ljóst að þegar hlúð er að og skerpt á verndandi þáttum í nærumhverfi barna skilar slíkt árangri.
Niðurstöður fyrir árið 2020 sýna að samvera foreldra og barna eftir skóla á virkum dögum sem og um helgar hefur aukist hlutfallslega eftir að það dró úr slíkum samverustundum árið 2018. Það eru vissulega mjög jákvæðar niðurstöður því tíma sem varið er með foreldrum og forráðamönnum er einn af verndandi þáttum íslenska forvarnarmódelsins.
Meirihluti nemenda í efstu bekkjum grunnskóla metur andlega og líkamlega heilsu sína mjög góða eða góða þó hlutfall þeirra nemenda sem telja andlega heilsu sína slæma hafi hækkað, sé horft til niðurstaðna fyrri ára.
Heilbrigður lífstíll einkennir meirihluta nemenda í efstum bekkjum grunnskóla á Íslandi. Sem fyrr sjáum við þó að hlutfall nemenda sem fá ekki nægjan nætursvefn hækkar eftir því sem þeir verða eldri og að sama skapi er neysla orkudrykkja mest meðal nemenda í 10. bekk þó dregið hafi úr slíkri neyslu samanborið við árið 2018